Forsíđa   
 01.01.2021
  Í aldaheimi rís 2021 og draumar um réttlćti fyrir öll börn alls stađar



Nýtt ár er risið í aldaheimi og
vonandi færir það lausnir á margri
áþjáninni í veröldinni.
Vísindin efla alla dáð: það sannaðist
í tækluninni á kórónuveirunni og með
samstilltu átaki vísindamanna um heim
allan við þróun og gerð hentugs bóluefnis
á nýliðnu hamfaraári.





Árið 2021 er Ár friðar og trausts
manna og þjóða á meðal samkvæmt
markmiðum Sameinuðu þjóðanna--UNESCO.
Ár sjálfbærra hagkerfa og grænna
lausna, grænmetis og ávaxta. En ekki
síst Árið, sem er tileinkað afnámi barna-
þrælkunar um veröld víða.
Tökum árinu fagnandi og leggjum okkar
af mörkum til þess að stuðla að auknu
jafnvægi plánetunnar og réttlæti fyrir börn
í vinnuþrældómi, sem rænd hafa verið
bernsku sinni, möguleikum til heilbrigðs
vaxtar og þroska, menntatækifærum
og aðstöðu til að rækta manngildi sitt
og vera fjálsir þjóðfélagsþegnar í
heimkynnum sínum og í alheimsþorpinu.







Vinnuþrælkun barna fyrirfinnst um allan
heim, og loks á allra síðustu árum hafa
þjóðir verið að vakna æ betur til vitundar
um þessi alvarlegu vinnuréttinda-og
mannréttindabrot og hafa sum lönd Asíu
eins og Indland til að mynda, sett á löggjöf
2016, sem bannar vinnu barna yngri en
14 ára að aldri.
Vesturlönd eru komin með slíka löggjöf
en spurningar þó hvort henni sé
framfylgt sem skyldi.
Afríka er sú heimsálfa þar sem flest börn
þurfa að sjá sér og/eða öðrum farboða,
eða eru hreinlega neydd til þrælknuarvinnu,
oft í löndum, sem eru illa hrjáð af stríðs-
rekstri, hnignun vistkerfa og innviða, rýrnun
landgæða og búferlaflutningum.
En samkvæmt eftirlitsstofnunum á borð
við ILO-Alþjóða Vinnumálastofnunina,
er talið, að a.m.k. 152 milljónir barna í
heiminum, um 64 millj. stúlkna og um
88 millj. drengja, neyðist til, eða séu neydd
til, að þræla fyrir lífsviðurværi fyrir smánarlaun,
föst í fátæktargildrum, iðulega til þess að auka
á auðsæld þeirra, sem skaffa sér vald yfir lífi
og limum annarra án þess að blikna.







Í flatneskjuheimi rányrkjuauðhyggju,
þarf lítið út af að bregða, jafnvel hjá
velmegandi þjóðum, til þess að fólk
og börn lendi á vergangi og flosni upp.
Kórónuveiruplágan ætti að kenna
okkur meiri aðgát um þau gildi, sem
raunverulega skipta okkur máli og
eru til hagsbóta fyrir allt mannkyn.
Svo og dýralíf og gróður Jarðar.
Þrátt fyrir draumstola menningu/
ómenningu firrtra valdhafa og sam-
félaga víða, lifir draumurinn um
heimað, að eiga sitt heima, og er
öllum mönnum í brjósti borinn.
Virðum það og verndum, bæði
hér heima og úti í heimi og gætum
þess að halda áfram að láta okkur
dreyma og raungera vonardrauma
til handa öllum börnum alls staðar.
Að þau fái að vera börn og eigi sitt
örugga athvarf, sitt heima.






Mig er alltaf að
dreyma eitthvað

Mig dreymir um
að vera ég sjálfur

Mig dreymir um
að vera ekki
ég sjálfur

Mig dreymir um
að ég geti látið
mig dreyma

Mig dreymir um
betri heim

Mig dreymir um
annan heim

Mig dreymir heim



(Gyrðir Elíasson, Draumar;
úr ljóðabókinni Draumstol;
Dimma, 2020).



#


Meira >>
 31.12.2020
 Hélublóm á hamfaraári



Að sjá hið fagra í hinu smáa, og
taka eftir hélublómunum, er gerlegt,
sama hvernig allt veltist og snýst
í óblíðri veröld og hamfaratíð ársins,
sem er að líða. Að horfa og hlusta á
Náttúruna, hefur reynst mörgum
svölun á erfiðum kórónuveirutímum.
Um slík tengsl við náttúruna, yrkir Erla,
austfirska skáldkonan og 9 barna móðirin,
sem orti við dagleg störf á mannmörgu
sveitaheimili í Vopnafirði, á síðustu öld.
Eitt barna hennar var Þorsteinn Valdimarsson,
skáld og kennari.






Erla var skáldanafn en hún hét raunar
Guðfinna Þorsteinsdóttir, (1891-1972),
og var ættuð úr Eiðaþinghá, komin af merkum
sagnameisturum og orðsins jöfrum;
Sigfús Sigfússon, bóndi á Skjögrastöðum í
Vallahreppi hvar Erla fæddist, afi hennar,
safnaði m.a. þjóðsögum, sem lesa má
í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Þessi einstaka skáldkona þýddi líka mörg
merkisverk úr ensku og Norðurlandamálunum,
og er hin undurfagra bók, Slagur Vindhörpunnar,
eftir færeyska skáldið William Heinesen, eitt merkra
þýðingarverka hennar og kom út hér á landi, árið 1956.
Hvernig Erlu tókst að afkasta öllu þessu í erli daganna,
ber glöggt vitni magnaðrar konu. Hún safnaði
ljóðunum sínum árum saman og orðin vel
fullorðin þegar fyrstu ljóðin tóku að birtast.
En fallegt og glæsilegt ritsafn verka hennar,
kom út árið 2013, útgefið af Félagi austfirskra
ljóðaunnenda.






Erla yrkir um náttúruna og birtuna í lífinu og
misjafnt hlutskipti mannfólksins í fyrstu bók sinni,
Hélublóm, frá árinu 1937. Mestu skiptir,
segir hún, að mæta aðstæðum með jákvæðu
hugarfari, þrautseigju og von í brjósti.
Treysta innri orkulindum í manni og alheimi.
Verum þess minnug nú þegar við kveðjum
hamfaraárið 2020, sem við vonandi lærum af.






Vertu ávallt hress í huga
hvað sem kann að mæta þér.
Lát ei sorg né böl þig buga.
Baggi margra þungur er.
Treystu því, að þér á herðar
þyngri byrði ei varpað er
en þú hafir afl að bera.
Orka blundar næg í þér.






#














Meira >>
 24.12.2020
 Draumurinn um Ljósiđ og austfirskur Silfurbergskristall breytir Heiminum


Enn á ný eru Jól--Hátíð Ljóssins--
haldin hér í heimi; ekki að undra að
mannkyn hafi frá örófi alda
velt fyrir sér ráðgátunni um það
undur sem ljósið er.
Við tökum raunar mörgu sem
svo sjálfsögðu í lífi okkar í
nútímanum að okkur hættir til
að gleyma að hrífast yfir sköpunar-
verkinu og sýna því lotningu.
En að finna til lotningar gagnvart
náttúrunni og Alheimi og upplifa
einingarkennd með öllu lífi,
var sá hæfileki mannsins sem hinn
mikli eðlisfræðingur og höfundur
afstæðiskenningarinnar um rúm
og tíma, Albert Einstein, taldi að við
mættu alls ekki missa sjónar af.






Talandi um ljósið og undur þess,
þá má segja að íslenskur kristall
hafi gjörbreytt ljósfræðinni og allri
rannsóknartækni og þar með
náttúruvísindum og vísindasögunni.
Lagt grunn að framþróun sem varð
undirstaða nýrrar samfélagsgerðar.
Þessi kristall er hið einstæða, stóra
og tæra silfurberg á Austfjörðum,
sem finnst í svokallaðri Helgustaða-
námu eftir samnefndum bæ
við Reyðarfjörð. Og lesa má um
í stórmerkilegri bók feðganna Leós
Kristjánssonar og Kristjáns Leóssonar,
Silfurberg - Íslenski kristallinn sem
breytti heiminum. Bókin kom út hjá
Máli og Menningu nú fyrir jólin.






Íslenska silfurbergið--Iceland Spar--sem
er af kalsít kalksteini og fyrirfinnst jú víðar
á jörðinni en er hér stærra og hreinna og búið
þannig kostum, að það gerði m.a.framleiðslu
og flutning raforku mögulega og stuðlaði að
framförum í efnistækni og fjarskiptum og
matvæla-og efnaframleiðslu. Olíuvélar og
efnaframleiðsla á iðnaðarskala tók nú við
af hestvögnum, gufuvélum og gaslömpum.
Þetta hreina, stóra og tæra silfurberg af
Austfjörðum, komið úr iðrum Jarðar en í
leiðinni dásamlegur Sólarsteinn til siglinga,
reyndist lykill að ráðgátum um eðli ljóss,
raf-og segulhrif, uppbyggingu efnisheims,
víxlverkun ljóss og efnis og eðli rúms og
tíma í Alheimi sem vísindamenn á borð við
Einstein og þar áður Skotinn James Clerk
Maxwell ofl. ljósfræðingar, bæði þekktu og nýttu.
Þessar uppgötvanir má rekja til notkunar
svokallaðs prismaglers sem unnið
var úr íslenska silfurberginu og skapaði
tvöfalt ljósbrot í stað einfalds ljósbrots
glerja sem áður höðfu verið notuð.
Prismaglerið ættað úr austfirskum firði,
hafði afdrifarík áhrif á framþróun vísinda
á 250 ára tímabili, allt frá 17. og fram á
20. öld, eða þar til farið var að nýta
plastefni í ljósfræðitækjum.
Töfrum lík saga og sönn í íslensku
sem alþjóðlegu samhengi, byggð á
gjöf Fósturjarðar vorrar sem ruddi
brautina að nútíma tækni, vísindum
og lifnaðarháttum!






Um leið og við höldum hátíðleg Jól
og hyllum Ljósið, munum eftir að
gleðjast yfir töfrum tilverunnar,
finna sinn hjartastað og setjast að.
Verum þess minnug að
Jólin eru sáttmáli um frið sem við
gerum allan heiminn við, eins og
segir í nýju lagi Baggalúts og Bríetar
og Valdimars, Jólin eru okkar:






Jólin eru sáttmáli um frið sem við gerum allan heiminn við,
Hlið við hlið.
Jólin eru okkar og allt sem fylgir  þeim,
Lýsa upp töfraheim...





#










Meira >>
 21.12.2020
 Yfir Bćnum Heima á Vetrarsólstöđum - og Jólastjarnan


Vetrarsólhvörf þegar sólin staðnæmist
eina andrá kl. 10.02 þennan morguninn,
og hverfist síðan um sjálfa sig og tekur
að klifra hærra á himinbaug, dag tekur
að lengja og birta, þessi sólhvörf heilsa
okkur nú við yzta haf í sorgarskini hamfara.
Á himni í suðvestri: magnað og einstakt
stjörnuspil þegar pláneturnar Satúrnus og
Júpíter virðast snertast í línulegri samstæðu
og einstakri uppröðun þessara Vetrarsólhvarfa.
Hefur ekki gerst með þessum hætti svo nálægt
Jörðu í 400 ár.
Sumir fræðimenn telja nú að hið sama stjörnu-
samstæðuspil hafi átt sér stað á hvelfingunni
fyrir 2000 árum og að ljósblossi frá Satúrnusi
á þessu móti plánetanna sem þá sást á himni,
sé etv. hin helga Jólastjarna.







Ótrúleg mildi--sumir tala um kraftaverk--,
þegar algjör mannbjörg varð á Seyðisfirði
þann 18. desember sl. Aurskriðurnar
úr Botnum hjá Búðará, sneiddu báðum
megin framhjá ófáum húsum og voru alls
25 manns enn í húsunum! Með ólíkindum
sjá myndir af atburðinum, í beinni.
Hér hafa ofanflóðavarnir skilað sínu.
En eyðileggingin er átakanleg og mikil;
gleymum ekki að aftur má byggja húsin
sem fóru með sínu mikla sögulega og
menningarlega mikilvægi - og sárin gróa.

Breiðablik hét bústaður Baldurs hins
góða goðs, hins hvíta áss; hér á landi
hefur húsum landsmanna sums staðar
verið gefið nafnið Breiðablik líkt og
aldamótahúsinu sögufræga, Breiðabliki
á Seyðisfirði.
Fyrsta raunverulega viðvörunin: þegar
aurinn úr Nautaklauf flutti Breiðablik um
tuga metra leið. Það að húsið standi
upp úr aurflóðinu þó illa laskað sé, er
góð áminning um sögu, fólk, menningu
og líf í firði sem lætur ekki að sér hæða...







Talandi um goð, þá er samkvæmt
þjóðtrúnni eins og kemur fram hjá
ýmsum fræðimönnum, s.s. Sigfúsi
Sigfússyni, þjóðsagnasafnara, sem
lengi bjó á Seyðisfirði, mikil helgi bæði 
í heiðni og kristni á austfirsku fjöllunum.
Tvær goðaborgir--bústaðir goða í háum
fjallasal--, eru taldar vera á Seyðisfirði,
sitt hvorum megin bæjarins, önnur í
tignarlegum Bjólfinum og hin í glæstum
Strandartindi, (og raunar ekki langt í
næstu borg/borgir milli Skælings
og Bungufells í Loðmundarfirði).
Með náttúruna á fleygiferð í óvissum
heimi, þurfa allir að læra, meta og endurmeta.
Hvað er hvurs virði og til hvurs er lifað?
 






Það þarf að draga hratt lærdóm
af ógnandi umturnun veðurkerfa,
læra á úrkomuákefð, sífrerahjöðnun
á fjöllum og geta brugðist raunsætt
við auknum hamförum. Allt gerist þetta
vegna loftslagsbreytinga, að líkindum.
Ein leið er að drena fjöllin við fjörðinn
fagra og/eða færa byggð, fjörðinn með
eitthvert besta hafnarstæði frá
náttúrunnar hendi sem um getur.
Ekki tilviljun að þar leggist farþega-
ferjur að frá Evrópu eins og Norræna.
Og ekki tilviljun að hér var fyrsta sæsíma-
samband við útlönd, og að hér höfðu Bretar
og Bandaríkjamenn hersetu í síðari
heimsstyrjöld eins og lesa má um í
lifandi frásögn Kristínar Steinsdóttur
í bók hennar Yfir Bænum Heima sem 
út kom nýlega hjá Máli og Menningu.
Það er ekki svo langt út fjörðinn á
vit annarra landa og þjóða...






Hugur okkar er hjá Seyðfirðingum.
Megi Jólastjarnan eina og sanna
varpa birtu, von og kærleik.á íbúana
og fjörðinn fagra og veita þrek og þor
til þess að halda áfram í harðneskjulegu
mótlætinu : það kemur alltaf nýr dagur.
Og þó húmi um hauður og voga,
mun himinsins stjörnudýrð loga.


Megi nýr dagur rísa; Seyðisfjörður á
marga haga listasmiði á tré en líka
á pappír, tón, striga, stein, textíl.
Mannauðinn vantar ekki til þess
að byggja upp á ný í listafirði.
Það mun rofa til eins og seyðfirska
skáldkonan frá Vestdalseyri,
Vilborg Dagbjartsdóttir, yrkir um
í ljóði sínu Rof:




Að vakna á sólbjörtum morgni,
finna dyr opnast
djúpt í myrkri sálarinnar

Birtan að ofan
streymir óheft niður
og hríslast um hverja taug

Þú verður ein heild
manst allt
skilur allt

- ert fær um að halda áfram
óttalaus
á leiðarenda.


(Vilborg Dagbjartsdóttir; 1930- ).





#
Meira >>
Síđasta frétt  1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA