Forsíđa   
 16.11.2022
 Hjartaţungt í heimi; skuggabaldur úii einn...


Í dag eru 215 ár liðin frá
fæðingu listaskáldsins góða
og orðasmiðsins knáa,
Jónasar Hallgrímssonar,
(16.11.1807 - 26.05.1845).

Þrátt fyrir um margt óblíða ævi
og fálæti valdsmanna um
hans lífshagi - og síðar bein -,
hafa fáir samlandar náð að lyfta
okkur í sál og sinni og láta okkur
dreyma um betri tíð fyrir mann
og annan; sannkallaður
ástmögur þjóðarinnar.
Slíkt er hans aðdráttarafl, bæði fyrr
og nú, að fjömargir geta samkennt
sig við hann í íslenkum raunveruleika
og aðstæðum. En aðdráttarafl er
eitt af nýyrðum Jónasar.

Ljóðin hans, nýyrðin, náttúrufræðin,
allur sá afrakstur, ber vott um
gríðarlega elju, afköst og næmni
skálds og fræðimanns sem lést
langt fyrir aldur fram, aðeins
37 ára gamall.
Jónas var menntaður í steinafræði
og jarðfræði innan náttúruvísinda
og hafði áður lagt stund á guðfræði
og lögfræði. Telst prestssonurinn úr
Öxnadal, - þar sem háir hólar,
hálfan dalinn fylla, - best menntaði
Íslendingurinn og fjölfræðingurinn
á sinni tíð.






Talandi um tíð og tíma: Jónas
var afar glöggur á hringrásina í
náttúrunni og gang himintungla
og þýddi m.a. merkilegt rit um
stjörnufræði eftir danska
stærðfræðinginn, G.F. Ursin.
Kom Stjörnufræði, létt handa alþýðu,
út í Viðey, árið 1842.
Í þeirri þýðingu er að finna
fjölmörg frábær nýyrði sem hafa
eignast fastan sess í þjóðtungunni.
Dæmi þar um eru reikistjarna,
sporbaugur, ljóshraði, aðdráttarafl
og þyngdarafl.

Í skáldskap og fræðum Jónasar,
má sömuleiðis víða finna falleg
og hnittin nýyrði, eins og haförn,
leðurblaka, útsýni, niðaþoka,
molla, sunnanvindur, sjónstjörnur,
sviphrein, ylhýr og hjartaþungt.
 



Nýlega kom út hjá Sögum útgáfu,
kærkomið bókverk sem segir
frá nýyrðasmíði Jónasar og
lýsir sögu hans í myndum,
eftir þær Önnu Sigríði Þráinsdóttur,
málfræðing og Elíni Elísabetu
Einarsdóttur, teiknara.
Verkið kallast Á sporbaug.



Þennan afmælisdag Jónasar,
grúfir skammdegismyrkrið við
marauða jörð snemmmorguns
og rakt er í lofti, síðan tekur
að rigna á köflum en léttir á milli
í hægstreymi seinnipartsins - og
um lágnættið, tekur hljóðlátt
næturmyrkrið völdin.

Óhætt að segja að hjartaþungt
í heimi nú um stundir og
skuggabaldur og skuggavaldra,
sé víða að finna í hamfaraveðri
tíðar og tíma. Missum ekki vonina
um betra útsýni í mannheimi.

Í einn af veðurvísum Jónasar,
yrkir hann svo:



Skuggabaldur úti einn
öli daufu rennir.
Skuggavaldur, hvergi hreinn,
himnraufar glennir.



#





Meira >>
 26.10.2022
 Tunglskinsljóđ, sem blćrinn ber; vetur rís í válegri veröld


Nú er vetur genginn í garð
og sumarið kvatt. Þessi tímamót
í náttúrunni líkt og svo mörg
önnur slík tímamót, eru álitin gjöful
til úrvinnslu og drauma. Vegvísar
um ókomna tíð.

Fyrsti Vetrardagur var hinn
22. október og síðan hafa dagar
verið stilltir, bjartir og fagrir;
á kvöldin blika stjörnur og
Norðurljósadýrð. Og snemma í
gærmorgun á nýju tungli, varð
deildarmyrkvi á sólu.




Tunglskinið býr yfir sínum
mögnuðu töfrum, sem vekja
von um sönn kærleikstengsl
en líka eftirsjá eins og segir í ljóðinu
Þín hvíta mynd, eftir góðskáldið,
Tómas Guðmundsson,(1901-1983),
og sem tónskáldið, Sigfús Halldórsson,
(1920ö1996), gerði undurfallegt
lag við og gaf út á albúminu
Fagra Veröld árið 1978.
Ljóðabók Tómasar, Fagra veröld,
hafði komið út 1946.

Ófáir íslenskir söngvarar hafa
spreytt sig á flutningi Þín hvíta mynd.
Má þar nefna Guðrúnu Á. Símonar,
Alfreð Clausen, Ellý Vilhjálms, og nú
síðast, Kristjönu Stefáns og Svavar Knút.


Eins og tunglskinsljóð, sem blærinn ber
úr bleikri firð á vængjum sér,
líður mér um svefninn hægt og hljótt
þín hvíta mynd um svarta nótt,
 kannske var það draumur, sem ég gat ekki gleymt,
en eitt er víst að síðan er í hjarta minu reimt.




Þegar Náttúran skartar sínu
fegursta eins og þessi dægrin
og hægstreymi vetrar tekur
völdin, eru mannlegir harmleikir
og ólýsanleg grimmd í veröldinni,
eitthvað svo úr takti við allt
þetta ljóðræna og draumkennda
sjónarspil.
Náttúran leitar samræmis
fyrir lif í jafnvægi.
Líka í mannheimi.




Á tímum vélvæðingar og
tækniundra og alnetsins,
getum við nú hlustað á okkar
frábæru söngvara flytja
Þín hvíta mynd, s.s. á YouTube.

En á sama tíma hefur því miður
reynst stutt í alvarlega firringu
í tengslum á milli manna og við
aðrar lífverur. Samkennd og meðlíðan
fara minnkandi en ásækni í áhrif
og völd yfir meðbræðrunum
aukast, oft með vélabrögðum.
Narsissmi og siðblinda í sókn.

Merkingarbær tengsl við aðra og
náin tilfinningabönd og félagatengsl,
eru jú það veganesti, sem við
þurfum á að halda til að vaxa og
þroskast og verða að manni
hvar mennska og miskunnsemi
eru leiðarljósin.




Nú um stundir ber svo við að hægt
er að granda öðrum manneskjum
með því að sitja bara við skrifborð
í órafjarlægð og beina þaðan
langdrægum flaugum til að valda
sem mestum skaða á lífi,
innviðum og eignum.
Með akkúrat engin tengsl við
skotmörkin: slíkt gæti truflað
sálarró og hreyft við siðvitund
skotmanna! Standa svo upp
frá dagsverkinu og ganga sæll
til náða eða hvað?

Eitruð valdaklíkan og ofstækisfullir
ráðgjafar í sínum makindum
þar fyrir ofan, stígandi dans við
forherta vopnasala; valdaelíta með
ægivald á fjölmiðlun, beitandi falsfréttum
og upplýsingaóreiðu.
(Ljóst að margir slíkir æðstráðendur
meika ekki dagana nema þunglyfjaðir/
eiturslævðir í sínu alræðisbrjálræði
eins og sagan sýnir. Hiltler var t.a.m.
háður daglegum amfetamínsprautum.
Gat ekki sofið. Skyldi engan undra).




Nýr, firrtur og óhugnanlegur
veruleiki blasir við með tilkomu
nýrra vopna, sem eru að gjörbreyta
heimsmyndinni, umturna gildum
og sverfa illilega að mannlegum
tengslum og reisn.


Vetur rís í válegri veröld.
Gleymum ekki að við eigum
möguleika til að ná áttum
og fóta okkur í þessum
nýja og harða veruleika.
Niðurstaðan á þann veg,
að við megum ekki sofna
á verðinum, baráttu er
þörf, nú sem aldrei fyrr.
 



#
Meira >>
 26.09.2022
 Jafndćgur og tré og haustlauf í ofviđri; skćr Júpíter á Norđurljósahimni og blessuđ börnin



Jafndægur á hausti runnu upp
sl. föstudag og nýtt tungl reis
á sunnudag. Mikið hamfararok
--raunar algjört ofviðri--skall á
í kjölfarið með einhverju mesta
lauffalli sem um getur á tveim
sólarhringum - og því miður
óheyrilegu tjóni víða á húsum,
mannvirkjum, innviðum, bifreiðum,
trjágróðri ofl. Þá sló rafmagni út
í klukkustundum talið, á stórum
hluta Norður- og Austurlands.

Komið að því að slíkt fárviðri með
vindstyrk á við 4. stigs fellibyli og
yfir 50m/s í verstu hviðunum,
sé tekið inn í Náttúruhamfara-
trygginu, ekki síður en flóð,
jarðskjálftar og eldgos.
En landsmenn greiða árlega
lögboðna brunatrygginu og
rennur ákveðið hlutfall hennar
síðan inn í Náttúruhamfara-
tryggingu Íslands.
Allt tal um loftslagsbreytingar
og veðurofsa þeim tengdum,
er ekki í tengingu við það sem
raunverulega er að gerast
í daglegu lífi þjóðar.





Það birti á ný og lyngdi og upp rann
einn fegursti dagur þessa hausts
hér í Eyjafirðinum, sólbjartur
frá morgni til kvölds.
Kvakandi garðfuglar iðnir við
reyniberjatínslu sem aldrei fyrr.
Og stjörnur og norðurljós leika
á kvöldhimninum ásamt
skærum og nálægum Júpíter.





Skólar komnir á fullt og verkefnin
af ýmsum toga, s.s. af hverju falla
laufin af trjánum og af hverju eru
haustlaufin í mörgum litum,
gul og rauð og logagyllt?
Lauftré draga blaðgrænuna úr
blöðunum fyrir lauffall á haustin
og senda niður í rótina.
Efnin sem eftir verða lita
laufin gul og rauð og eru
efni sem tréin hafa ekki eins
mikið fyrir að framleiða.

Haustið veldur mörgum kvíða
yfir komandi vetri og ekki að undra.
Litrík laufin fara sölnandi og náttúran
fellur smám saman í dróma vetrar.
En þótt yfirborðslífið sofi,
vakir lífið í rótinni og sem
vaxtarvísar í bruminu...





Aðstæður skólabarna eru afar
mismunandi hér á landi og
sumir barnahópar hafa alls
ekki hlotið þá athygli og
stuðning sem þeim ber.
Má þar nefna börn fanga.
Mun málþing á vegum
Umboðsmanns barna fjalla
um þau mál á næsu dögum.

Enn hefur Ísland ekki fullnustað
Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Börn eru börn og þurfa stuðning
til að vaxa og dafna, sofa og
dreyma. Gleðjast yfir lífinu og
fjölbreytileikanum sem m.a.
birtist í litum árstíðanna.

Öll höfum við skyldur við
börn ef við ætlum að standa
undir nafni mannúðlegs samfélags.
En skeytingarleysi er einn af
bölvöldumn--níðhöggum--nútímans
og sverfur að mildi og manngæsku.




Leyfum börnum að vera börn
að leika og læra - og syngja.
Víða á leikskólum og í skólum
landsins, hefur tíðkast að syngja
óðinn til haustlaufanna eftir
kennarann og skáldkonuna,
Önnu Svanhildi Björnsdóttur,
við lag Þorvaldar Arnar Árnasonar:





Við erum haustlaufin
sem leika í golunni.
Fagurrauð, með litla
ósýnilega vængi.
Glettast og láta sig
engu varða
þótt veturinn sé í nánd.

Við áttum okkar sumar,
áttum okkar vor
en núna erum við
rauðglóandi
af ástríðu haustsins.
Við erum haustlaufin...



#









Meira >>
 27.08.2022
 Fjalliđ Kerling og draumlendur í Grundarţingum


Fjallið Kerling með sinn Röðul og
Jómfrúartind, Karlinn og hin forna
eldstöð Súlur, gnæfa yfir grösugum
lendum Eyjafjarðar og gjöfulli Eyjafjarðará.
Kerling hæst fjalla í byggð á Norðurlandi,
1538 metra hátt og talið yfir 8 milljón
ára gamalt. Hluti af hinni ævafornu
eldstöð Glerárdala. Formfegurðin er
einstök með sinn pýramídatopp.
Kerling gerð úr blágrýti og líparíti;
þar vex jöklasóley í1500 metra hæð.

Ekki að undra að Helgi magri, hafi sett
niður bú sitt undir rótum þessa magnaða
fjallgarðs. Þar grær margt á grundu og
hið sögufræga höfuðból Grund, síðar
landmesta jörðin við rætur Kerlingar.





Sannkallaðar draumlendur hér um
slóðir og eru merkar þjóðsögur,
draumar og vitranir til af svæðinu
s.s. frá Grund, Möðrufelli, Miklagarði
og Hvassafelli .

Sagan af Snæfríði Eyjafjarðarsól
á Möðrufelli er vel sráð. En henni
er eignað orðtakið betra er yndi en auður;
til er lika útgáfa af Sigríði frá Grund.
Hvort það voru menn í álagahami trölla,
sem höfðu hana á brott eður ei,
skal ósagt látið en einhverra hluta vegna
kallast allur skaginn milli Eyjafjarðar
og Skagafjarðar, frá fornu fari,
Tröllaskagi.

Þekktar eru draumsýnir frú Aðalbjargar
Sigurðardóttur frá Miklagarði, eiginkonu
séra Haraldar Níelssonar, guðfræðiprófessors.
En hún sá í annan heim og til eru skráðir draumar
Aðalbjargar allt frá barnsaldri í heimasveitinni.

Þá er draumvitrun Þorsteins Hallgrímssonar
á Hvassafelli einstök, af fráfalli þjóðskáldsins
Jónasar, bróður hans.




Á nýju tungli í sólbjörtum Grundar-
þingum, kemur þessi draumvitrun
Þorsteins á Hvassafelli, bróður
Jónasar skálds, í hugann.
En Jónas ólst upp hjá móðursystur
sinni á Hvassafelli eftir að faðir hans
drukknaði í hinu djúpa Hraunsvatni
í Öxnadal og fór til náms á Möðrufelli
hjá séra Jóni Jónssyni, lærða.

Bakki, hinn forni kikjustaður og nú 
elsta guðshús í Eyjafirði, skammt frá
Hrauni hvar Jónas fæddist, var aðal
grefrunarstaður í Öxnadal.

Þorstein dreymdi að hann væri staddur
á Bakka í jarðaför Jónasar, bróður síns.
Og fannst hann heyra þessa draumvísu
sagða fram:



Hann er laus við heims ókjör,
í himna kominn ranninn.
Áfram minni flýti för,
far vel mælti svanninn.



En einmitt um þetta sama leyti
síðla maí 1845, hafði Jónas, bróðir
hans, látist i Kaupmannahöfn,
án þess Þorsteinn vissi.




Margar sagnir fyrr og nú,
staðfesta slíkar vitranir í draumi
hjá nánum einstaklingum og
mjög þekkt að mæður finni fyrir,
skynji eða dreymi fyrir um slys
og andlát barna sinna, ungra
sem uppkominna.

Stundum er haft á orði að
innangengt sé á milli manna.

Dreymi vel á síðsumri!





#
Meira >>
Síđasta frétt  1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA