Forsíđa   
 22.03.2022
 Ţegar sólblómin snúa frá sólu og heimur fetar sorgarbraut


Nú að nýafstöðnum Vorjafndægrum,
þann 20. mars, syngja fuglar glaðir
í garði, syngja inn vorið í hug og hjarta.

Skógarþrösturinn er mættur--kannski
var hann hér í allan vetur--, eins og
snjótittlingurinn og auðnutittlingurinn,
starinn og hrafninm. Sólblómafræ
í uppáhaldi garðfuglanna.
Þetta er líka góður tími til að huga
að inniræktun sólblóma: sá fræjum.


Hin magnaða söngkona, laga-og
textahöfundur, Bríet, fagnar 23 árum
í dag. Meðal laga hennar er Sólblóm
frá 2020:



Veit ekki hvað ég vil sjá
þegar ég loka augunum.
Skýin svo tómlega grá,
sama hvar ég er.
Heimurinn snýst hratt í hringi,
er samt ekki á hreyfingu.
Hvort var það rétt eða rangt að fara frá þér?

---Og kannski sneri ég mér undan þegar ég átt'i að doka við
eins og sólblóm sem snýr í burt frá sólinni.
Ég visnaði.
Ég visnaði.




Megi raust mennskunar--máttur orðsins--,
bíta í heimi þeirra mannlegu hörmunga,
sem stríðið í landi sólblómanna,
Úkraínu, er, og færa hrjáðum, nýja von
og langþráð réttlæti.

Sólblóm eru sannkölluð draumablóm
í siðmenningunni og kemur ekki á óvart
að sem draumtákn, standi þau fyrir bæði
veraldlega hagsæld og andlega farsæld.

Sólblóm er þjóðarblóm Úkraínubúa
og er guli liturinn í fána þeirra,
tákn um þessi gjöfulu grös Jarðar.
En Úkraína er stærsti útflytjandi
sólblóma í heiminum. Þaðan koma
um 60% af allri sólblómaolíu
í veröldinni; hismið síðan notað
í dýrafóður. Úkraína framleiðir yfir
11 milljónir tonna af sólblómaolíu
árlega og þar af er mest flutt til
Indlands. Spurning hvað Indverjar
gera í stöðunni nú?

Það eru fleiri nauðsynjar í boði
náttúrunnar, sem Úkraína framleiðir
og flytur út, s.s. hveiti, bygg og maís
enda oft kölluð brauðkarfa heimsins.
Hvað gerist með fæðuöryggi heima fyrir
og heimsbyggðarinnar allrar í þessu
samhengi, er fyrirkvíðvænlegt.
Nú þegar eru ræktunarlönd eyðilögð,
og innviðir þar í landi víða rústaðir,
og fólk á flótta í eigin landi og úr landi.

Þá er ýmis hrávara, útflutningsvara,
s.s. kol. Gasleiðslur liggja um landið
vestureftir yfir til Evrópu. Með öðrum
orðum, landið er miðstöð fyrir ýmis
konar jarðefnaeldsneyti og flutning þess.
Þá eru strategískir málmar og steinefni
mikilvæg til útflutnings: stál, járn, nikkel,
fosfór, nauðsynlegt í rekstri samfélaganna
í bæði Austri og Vestri.
Orkubúskapur heima og heiman á í
hættu að raskast illilega.

Vissulega er endurskoðun hrávöru-
notkunar löngu tímabær vegna
ótæpilegrar kolefnislosunar í
heiminum með tilheyrandi veðuröfgum.
Nú liggur á að finna nýjar og
sjálfbærari leiðir til þess að nýta
hagkvæma og náttúruvæna hrávöru.

Þetta styrjaldarástand nú,
er það hrávörustríð? Borið uppi
af ásælni í auðlindir og yfirráð þeirra
og betri hafnlægi við Svartahaf?
Geópólítískur harmleikur.
Og ekki skyldi gleyma ofsóknaróðum
hugmyndafræðingunum að baki
valdsækinna stjórnarherra líkt og
áður hefur gerst í sögu Evrópu.




Sólblóm kallast líka sólfíflar,
Helianthus annuus, og voru
ræktuð í árþúsundir af Indíánum
N.-Ameríku. Bárust síðan með
Spánverjum til Evrópu snemma á 16. öld.
Og með Pétri mikla Rússlandskeisara,
(1672-1725), til Rússlands og Úkraínu
 á 17. öld eftir ferðalag um Vestur-Evrópu.
En Pétur nútímavæddi Rússland og
stóð fyrir umfangsmestu einræktun
sólblóma í Evrópu, sem sögur fara af,
og voru heilu landflæmin brotin undir
þá ræktun.




Nytjar sólblóma voru mjög fjölþættar
meðal sumra Indíánaþjóða eins og
Hopi Indíána, sem nýttu alla plöntuna,
notuðu blöð og stöngla til matar og
til körfu og mottugerðar og þurrkuðu fræin
og muldu í mjöl í brauð og grauta.
Nýttu fræin til litunar á listmunum
og vefnaði og sem líkamsmálningu.
Þetta segir okkur að hægt er að nýta
gróður Jarðar á mun fleiri vegu
en við gerum nú.

Mættum vera þessa minnug og að
þessi gróður Jarðar, sólblómin,
eru þeirri merku náttúru gædd,
að geta snúið krónum sínum
á stiklunum í átt til sólar hverju sinni.
En eins og Bríet syngur um í sinni sorg,
þá visna þau þegar þau snúa í burt
frá sólinni...




Það sem dýrmætt er, á í hættu að slokkna
og visna eins og núna með Úkraínu
ef haldið er áfram á þeirri sorgarbraut,
sem nú er fetuð.
Hermenn, sem börðust í báðum
heimsstyrjöldunum, hafa lagt áherslu
á friðarumleitanir og samninga og
vopnahlé á milli stríðandi fylkinga.
Það að setjast við samningaborðið,
sé leiðin áfram, ekki stríðsrekstur með
hrikalegu mannfalli og tilheyrandi
hörmungum á báða bóga.


Sólblómin raðast í spírallaga form út frá
miðri krónu; tímanum er oft líkt við spíral.
Við förum ekki afurábak heldur lærum af
hinu liðna með því að skoða spíralinn
í núinu og halda mót framtíðinni.
Sólblómin hans Péturs mikla Rússakeisara,
eru afar merk fyrir sögu Evrópu eins
og margt annað frá því tímaskeiði.
En sá tími er liðinn og kemur ekki aftur.


En tíminn er ólíkindatól og það eru sólblómin líka:
úkraínsk sólblóm og afurðir þeirra komu að góðum
notum við hreinsun eiturefna úr jarðvegi í Chernobyl
og síðar í Fukushimakjarnorkuverinu í Japan!


Hefjum upp raust vora til varnar mennskunni
og höfum þá auðmýkt til að bera að læra af
sögunni og reynslu kynslóðanna.
.



#




Meira >>
 02.02.2022
 Kyndilmessa og Strönd-Akademía fagnar 20 árum: Til nýrrar strandar lítur dagur hver


Kyndilmessa er í dag og víða
haldin hátíðleg hérlendis til þess
að fagna sólarsýn eftir að sól
í þverhníptum fjörðum landsins
hefur ekki sést í 2 til 3 mánuði.

Við fögnum því að sól hækkar á lofti
og birtustundum fjölgar jafnt og þétt.
Kyndilmessan er sannkölluð
ljósamessa í eiginlegri sem
óeiginlegri merkingu; kertamessa
-Missa candelorum--eins og
hún er nefnd í kristnum sið,
hreinsunarhátíð Maríu meyjar.


Dagurinn er aldagamall veður-
vitadagur hérlendis: ef í heiðri
sólin sést á sjálfa Kyndilmessu.
Sem sé, ef sólin sest á heiðum
himni 2. febrúar, var það talið vísa
á snjóa næstu vikur á eftir.
En fólk átti mikið undir veðri á
þessum  árstíma, varð að þreyja
Þorrann og Góuna, og vetrarvertíð
hófst í vikunni eftir Kyndilmessu.

Svipuð veðurtrú varðandi lengd
vetrar og almennt veðurfar,
kemur fram víðar, og er t.d.talað
um dag Múrmeldýrsins,,eða
Groundhog Day, en þá kemur
múrmeldýrið út úr holu sinni.
Ef það er heiðríkja og það sér
skugga sinn, hverfur það aftur
til baka inn í holuna, og er vetur
þá talinn áfram næstu 6 vikurnar.
Groundhog Day, 2. febrúar,
er hátíðisdagur í Bandaríkjunum
og Kanada.





Á Kyndilmessu, 2. febrúar 2002,
eða 02.02.2002. tók sálfræðistofan
Strönd-Akademía formlega til starfa,
og fagnar því 20 ára afmæli í dag.
En stofan kom að stofnun Skuggsjár
draumaseturs árið 2003, og hefur
sinnt sálfræðiþjónustu fyrir börn,
unglinga og fullorðna á Akureyri
og víða á landsbyggð öll árin og
er elsta sálfræðistofan í eigu konu
utan höfuðborgarsvæðisins.


Sálfræðistofan hefur haft orð þýska
skáldsins og heimspekingsins,
Johann W. von Goethe, (1749-1832),
að leiðarljósi um hinn nýja dag
sem ætíð rís úr djúpi tímans:

til nýrrar standar
lítur dagur hver.





Í hafvillum mannlífsins er
vandsiglt oft á tíðum og
ferðin heiman og heim
kallar iðulega á áttavita,
kort að sigla eftir og á
reyndan leiðsegjanda
til þess að sneiða hjá
afvegaleiðsögn afla og
vætta, hinum svonefnda
villusöng sírenanna.


Öll erum við Ódysseifar
í vissri merkingu, í stöðugri
leit að merkingu og tilgangi.
Þessi leit gerir okkur að því
sem við erum líkt og segir
í Ódysseifskviðu sagnaskáldsins
Hómers á 8. öld f. kr. og
síðar í meistaraverki írska
skáldjöfursins, James Joyce,
(1882-1941), Ulysses.
En í dag eru einmitt 100 ár liðin
frá fyrstu útgáfu bókarinnar í París.
Joyce var fæddur 2. febrúar og
stóð þá á fertugu.


Megi hver og einn ná heim
að lokum á sína kyrrlátu strönd,
reynslunni ríkari:




Ég sem hef hlýtt á sýrenurnar syngja
mun senn koma úr hafi, una kyrrlátum ströndum
með seiðmáttkar raddir runnar mér í blóð.




(Hannes Pétursson, 1931 -  ;
Stund og staðir; Helgafell, 1962).



#


Meira >>
 01.01.2022
 Dýrmćti lífsins á nýju ári og mannveran sem draumvera



Nýtt ár er risið úr regindjúpi
tímans og það gamla hnigið.
Von um betri tíð í kófinu, er
endurvakin, og líkt og í öðrum
krísum, vaknar spurningin um
endurmat og nýja sýn á alla
hluti.



Viss sorgartími ríkir hjá mörgum
um veröld víða yfir þeim og
því sem fólk og samfélög
hafa misst síðustu misseri.
Einnig í afkomu og lífsgæðum.

Veðuröfgar, flóð og eldar
hafa ógnað tilvist margra
lífvera--manna, dýra, plantna--
um heimsbyggð alla.

Árangur, sem náðst hefur í
mikilvægum baráttumálum,
hefur hrapað eins og á sviði
fátæktar og mannréttinda.

Skortur á tilgangi og tengingu;
merkingu. Vaxandi og lýjandi
einmanaleiki orðið kunnugt stef
í daglegri tilvist margra.





Nú þarf að bretta upp ermar
og hafa hraðann á.
Kominn tími til að tengja,
svo vitnað sé í Skriðjöklana,
sællar minningar.

Já, hvað tengir okkur sem
fólk, þjóð í samfélagi þjóða?
Eitt af því eru draumarnir.

Allar mannverur eru líka
draumverur og draumarnir
tengja alla menn. Bæði
draumar nætur og dags.
Dýrmæt er gjöf draumsins,
þeim, sem hlustar og hyggur.
Vitundarmögnun draumsins
og tenging við innri svið,
gefur orku til umbreytinga.




Sagt er, að missir skerpi
skilning á dýrmæti lífsins.
Og að besta ráðið við
kalblettum á mannlífinu,
sé blómstrandi umhyggja.


Svo skrifaði séra Jakob Ágúst
Hjálmarsson, prestur Ísfirðinga
en ættaður frá Bíldudal, í bók
sinni, Þormóðsslysið 18. febrúar,
1943, (útg. Vestfirska Forlagið,
2013) þegar 70 ár voru liðin frá einu
mannskæðasta sjóslysi Íslands-
sögunnar, Þormóðsslysinu
svokallaða. Í því fórst 7 manna
áhöfn og 24 farþegar á flutninga-
skipinu Þormóði, út af Garðskaga
á Reykjanesi í algjöru aftakaveðri,
konur, karlar og börn.
Flestir, eða 22, frá Bíldudal,
á leið í höfuðstaðinn.

Að rísa upp úr slíkum missi,
er ofurmannlegt. Sár gróa
í rás tímans. Elska, skilningur
og hluttekning í verki, græðismyrslin.




Megi árið 2022 reynast
tími blómstrandi umhyggju
í samfélögum mannvera og
draumvera nær og fjær.





#








Meira >>
 31.12.2021
 Dynjandi rymur í klakaböndum í árslok '21 - og óskabarn ţjóđarinnar



Nú er árið 2021 senn liðið.
Fjöll Dýrafjarðar og Arnarfjarðar
spegla sig í blikandi haffletinum
og náttúruvættið Dynjandi,
rymur við raust þó í klakabrynju sé.
Vatnið jaðigrænt og streymandi
inni á milli og yfir klakaböndin.


Þökk sé verndinni yfir ættjörð vorri.
Hvers kyns óárán og plágur
hafa steðjað að lítilli þjóð norður
við heimskautsbaug í gegnum
aldirnar - og hún lifað af.

Nú síðast plága ein kennd við kórónu!
Tilurð hennar furðuleg og framganga
yfir heimsbyggðina, lygi lkust.
Að ógleymdu því hörmulega manntjóni
og efnahagslegu hremmingum,
sem hún veldur, þessi ógnvaldur.




Víkur sögu að ólíkindatólinu Ísólfi:
Nú hafa 150 milljónir rúmmetra
hrauns komið upp á Reykjanesi í
mögnuðu eldgosinu í Fagradalsfjalli.
Hinu fyrsta í 800 ár.
Heiðra skyldi landvætti og landnáms-
menn vora, Ísólf á Skála, þ.m.t..





Forfeður vorir þraukuðu í
harðneskjunni við yzta haf
í harðbýlu landi og oft erfiðu
yfirferðar. En landið reyndist
gjöfult um margt. Og gott gat
reynst að vera til hvar maður
var manns gaman.

Ákveðin kúnst að lifa og
vera til eins og lífshlaup
Jóns Sigurðssonar, forseta,
ber vel með sér.
Eins mesta heimsborgara
okkar Íslendinga á sinni tíð
og talsmann á erlendri grund,
sem fékk mikilleika vestfirsku
fjarðanna og fjallanna með
móðurmjólkinni. Og drunur
Dynjanda sem hinn fegursta
hvatningarsöng...




Jón fæddist 17. júní 1811 á
Bótólfsmessu og ólst upp til
18 ára aldurs á prestsetrinu
Hrafnseyri við Arnarfjörð
hvar faðir hans, séra Sigurður
Jónsson, þjónaði. Var snemma
mikill bókaormur og sagt
að hann hafi legið í bókum
þegar færi gafst til. En iðinn,
hirðusamur og vandvirkur
Listaskrifari frá því hann lærði
að draga til stafs; skrift hans
höfð sem forskrift af mörgum.

Móðir Jóns var Þórdís Jónsdóttir
en um hana sagði eiginmaðurinn:
Þú vilt gefa allt, Þórdís, svo var
hún gjafmild við fátæka og þá
sem minna máttu sín.

Sem dæmi um sjálfsbjargar-
viðleitnina í faðmi blárra
og þverhníptra fjalla, stundaði
séra Sigurður, sjóróðra á vorin
og var talinn góður sjómaður
og fengsæll. Fór svo heim um
helgar til að sinna embættis-
verkum á Hrafnseyri.

Systkini Jóns forseta, voru
Margrét, síðar húsfreyja
í Steinanesi í Arnarfirði,
og Jens, kennari og síðar
rektor Lærða skólans
í Reykjavík.




Átthagarnir voru sem sé í
stórbrotinni fegurð
Arnarfjarðar og hafa þeir
eflaust blásið ungum manni
þrek og þor í brjóst til þess
að takast á við flóknar
áskoranir síðar á ævinni.
Lengi býr að fyrstu gerð...




Við eigum óskabarni þjóðarinnar,
Jóni Sigurðssyni frá Hrafnseyri,
afar margt að þakka, þessi þjóð,
og hollt að minnast orða hans
um vandmeðfarið frelsið.
Þessi ötulasti talsmaður
fyrir frelsi þjóðar, sómi hennar
sverð og skjöldur, benti af
sínu raunsæi líka á hina hliðina:
stjórnleysið og agaleysið.




Nú um stundir í heimi tækni
og samskipta, (sem við vissulega
gleðjumst yfir--Dýrafjarðargöngin
yfir til Arnarfjarðar, eru gott
dæmi þar um, sem létta líf margra
og skapa færi á að kynnast og
njóta íslenskrar náttúru--), er
stjórnleysi samfélaga og
agaleysi á samfélagsmiðlum
og í fjölmiðlum, afbakanir,
upplýsingaóreiða, og falsfréttir,
(misinformation og disinformation),
farið að ráða vettvanginum og
daglegri líðan.

Eiturspúandi vélar samfélags-
miðlanna: já, þær eru í það
minnsta, nýting tækni án ábyrgðar,
oft á tíðum.
Hvað með sjálfstæðið og lýðræði
í heimi valdsækinna tæknirisa,
sem eiga aðgang að miklu meiri
upplýsingum um menn og málefni
en áður hefur sést í mannkynssögunni?



Eins og fram kemur hjá Vilhjálmi
Þ. Gíslasyni í ritinu, Jón Sigurðsson
í ræðu og riti, frá lýðveldisárinu 1944,
þá taldi Jón, frelsi án banda,
án takmörkunar, væri ekki frelsi,
heldur agaleysi og óstjórn
Bönd væru jafn nauðsynleg
inn á við sem út á við.




#


Meira >>
Síđasta frétt  1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA