Forsíđa   

 21.03.2021
 Reykjanesiđ - Ísólfur á Skála - og eldar ţróunar



Nú hefur Reykjanesið skolfið
svo um munar í rúmar 3 vikur
uns nokkurt hlé varð, eins konar
upptaktur að gosi í Geldingadal.
Gamla fólkið talaði gjarnan um
sérstakt logn í náttúrunni sem
undanfara eldgosa: nú fer að gjósa.
Og þótt lítið sé gosið að svo stöddu,
er næg innistæða elds á svæðinu.
Nýtt tímabil þróunar í jarðsögunni,
kann nú að vera að hefjast og sem
ekki sér fyrir endann á. Mikil mildi
er yfir þessari byrjun og megi svo
verða áfram.

En hver var hann þessi Ísólfur á Skála
sem Geldingadalur tengist að líkindum?
(Landnámsjörðin Skáli eða Ísólfsskáli,
er um 10 km austur af Grindavík, stutt
frá Suðurstrandarvegi og í hættu, renni
hraun frekar í Nátthaga í suðurátt).
En trúlega er dys Ísólfs þó ekki þarna,
miðað við nýjustu athuganir og kallar
það á frekari umfjöllun út frá örnefnaskrá.
Þegar þessari spurningu er velt upp,
kemur í huga annar landnámsmaður
austfirskur, sonur Bjólfs á Seyðisfirði.
Ísólfur sá var talinn ættfaðir Seyðfirðinga.
Merkilegt hve þessir stóru atburðir
í Náttúrunni--gosið nú og aurskriðurnar
á Seyðisfirði í desember--á síðustu 3
mánuðum, tengjast þessum landnáms-
mönnum og sama sterka nafninu!
Ísólfur fyrir ís-úlfur. Úlfur gjarnan kenndur
eldi og sólu. Vel færi á að kalla nýja
hraunið Ísólfshraun.



Ýmsir draumar hafa gengið í vetur
af umbrotum í náttúrunni og eins af
tveim fornmönnum...




Vorjafndægur 2021 munu seint
renna úr minni við fagurt sjónarspil
eldtungnanna í Geldingadal/Geldingadölum
hvar áðurnefndur Ísólfur landnámsmaður
á Skála, var talinn dysjaður;
Ísólfur vildi hvíla í grösugum dalnum
þar sem geldingar hans höfðu unað
hag sínum vel, segir í Landnámu.
Þessi lýsing Landnámu af geldingum
hans í grösugum dal, leiðir hugann
að ásýnd og landkostum Reykjaness
við landnám: lýst sem hlunnindamiklu,
grösugu og kjarrivöxnu.
Voru þar a.m.k. 6 landnám, gjafir
Ingólfs Arnarsonar til vina og ættingja.
Eitt þeirra kom í hlut landnámskonunnar
Steinunnar gömlu, sem fékk land milli
Rosmhvalaness að Kvíguvogabjörgum
í Vogastapa en svæðið þar austar og
að Hvassahrauni, eftirlét hún Eyvindi,
frænda sínum og fóstra.
Steinunn útbjó ermalausa yfirhöfn,
svokallaða heklu, til handa
Ingólfi að launum. Snjöll formóðir
okkar Íslendinga og úrræðagóð!






Við uppgröft síðustu ára á Reykjanesi,
hefur komið í ljós að margt bendir
til landnáms mun fyrr á Reykjanesi en
hið sögulega landnám Íslands byggir á.
Og er þá miðað við að etv. hafi aðrar
þjóðir átt sér útstöðvar á Reykjanesi
og sótt í auðlindir þar, fisk, hvallátra og
bjargfugl og verðmætar rostungstennur.
Örnefnið Rosmhvalanes er talandi tákn
þessa tíma, rosmhvalur fyrir rostungur
en rostungstennur voru hinar mestu
gersemar og dýrmætur gjaldmiðill
öldum saman í Evrópu og víðar.

Reykjanesið endurspeglar deiglu
drauma og vona í aldanna rás og
skrifar sögu þróunar tíma og rúms,
á skáhöllum flekaskilum heimsálfa;
býr enn yfir sínum leyndarmálum
en líka hættum, háska: vá.
Þar fyrirfinnast allar tegundir
eldstöðva, jarðhiti, hverir og
laugar og ýmsar bergtegundir,
algengastar eru móberg og basalt.

Hraunið í Geldingadölum er basalthraun
og gæti ekki hafa komið upp á betri stað
þarna á hásléttunni í djúpu dalverpi
þar sem basalthraun nálægt byggð
getur runnið langar vegalengdir.





Talandi um landnám Steinunnar gömlu 
og Eyvindar, Kvíguvoga, síðar Voga,
og Vatnsleysuströndina, þá áttu fornu
stórbýlin og úvegsjarðirnar,
Stóra-Vatnsleysa og Minni-Vatnsleysa,
öldum saman víðfem lönd uppeftir.
Eins og fjölmörg örnefni úr landi
Vatnsleysujarða, bera með sér,
þá hefur hraun flætt þar víða: eldvörp,
gíghólar, fell, sprungur, hryggir, nafir.


Landið á Reykjanesi er nú víða
örfoka og illa farið og landbrot
mikið. Ágangur manna og elda, vatns
og sjávar í aldanna rás, segir til sín.
Kjarr og hrís hafði verið  ágæt búbót
fyrr á öldum; var hrísskattur t.a.m.
greiddur árlega til Bessastaða.
Nú er hrísið horfið en hugmyndir um
Suðurnesjaskóga komnar á dagskrá:
birki gæti dafnað á þessum slóðum
og færi vel í landslaginu.





Síðustu gos á Reykjanesi eru talin
frá því um 1240 og því tæp 800 ár
frá því síðast gaus og þar til nú.
Sú sviðsmynd sem blasti við í
jarðfræðikerfi Reykjaness við landnám,
og fyrstu aldirnar á eftir, er gjörólík
því sem nú er og þarf að taka
stórar breytingar inn í jöfnuna
þegar reynt er að sjá fyrir mögulegar
sviðsmyndir í nútímanum varðandi
bæði jarðskjálfta og eldhræringar.
Í dag er Reykjanesið ekki einungis
eldbrunnið heldur líka vatnssósa og
má segja að mörg svæði þar hvíli á
samblandi af ferskvatni og sjó.
Þar segir gljúpur berggrunnur til sín
og sérstæð jarðsaga skagans.
Er vatnsstreymið neðanjarðar við Straumsvík
t.d. talið á við dágott árstreymi daglega.




Móbergsfjallið Keilir rís í miðju landslaginu
og stendur allt af sér, er enn í dag viðmið
fyrir svo margt og enn er hann viti sjómanna
varðandi það að miða út fiskimið, bæði
á Faxaflóa og sunnan Grindavíkur.
Keilir varð til á ísöld við gos undir jökli.
Nyrðri endi kvikugangsins sem tók að myndast
í vetur, er ekki langt frá Keili--á þessum slóðum
varð stóri jarðskjálftinn 5.4 á Richter þann
24. febrúar sl.-- en á kvikuganginum
til suðurs, opnaðist sú sprunga sem
nú gýs svo tignarlega úr í
Geldingadal/Geldingadölum.

Fyrir okkur nútímafólkið er það að berja
Reykjanesið augum og sjá fjöll og fell
í hrauninu og bláa þríhyrninginn, Keili,
rísa í landslaginu, við heimkomu
erlendis frá, ættjörðin sjálf, land elds
og ísa. Ísland er land þitt!






Blár þríhyrnigur
blasir héðan við
einstakur mjög
á eldbrunnum skaga:
gamli Keilir
sem kælir sjón mína, og herðir.

Pýramídi í auðninni
engum reistur!


(Hannes Pétursson; 1931-).



#













Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43  44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 263 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA