Mildir júnídagar og kærkomnir
og nú á Sautjándanum léttir
til seinni partinn eftir vætu
morgunsins.
Nýr dagur og fagur við
yzta haf á friðmannsins
draumalandi:
Og þessi blettur, öllum frjáls og fagur,
friðmannsins draumaland á bak við hafið,
bauð fyrstu gestum einverunnar unað,
ósnortið land og gróðurskrúði vafið;
þögn þess var ofin eflarniði og lindar,
ilmreyr í skógi, hvönn í gili og mó
og friðarhöfn á hvítalygnum vogi
hverjum er langveg fór um krappan sjó.
Svo orti skáldið Guðmundur Böðvarsson
frá Kirkjubóli, (1904-1974), í
Þjóðhátíðarljóði 1974.
En Guðmundur var afkastamikið
skáld og þýðandi og stundaði
búskap meðfram heima á
Kirkjubóli í Hvítársíðu í Borgarfirði.
Silja Aðalsteinsdóttir, rithöfundur,
bókmenntafræðingur og þýðandi,
tók saman merka bók um ævi og störf
Guðmundar, Skáldið sem sólin kyssti,
og út kom hjá Hörpuútgáfunni
árið 1994. En fyrir bókina hlaut hún
Íslensku bókmenntaverðlaunin 1995.
Bók Silju tengir við heiti fyrstu
ljóðabókar Guðmundar Kyssti mig sól,
sem út kom árið 1936 og
naut mikilla vinsælada.
Alls urðu ljóðabækurnar tíu og
að auki ein þýdd að ótöldum
fjölmörgum greinum um þjóðmál ofl.
Í þessu merka bókverki Silju,
kemur margt fram um ævi
og ættir Guðmundar sem
varpar ljósi á skálda-og
æviferil hans; lífsljóðið hans.
Silja gerir m.a. grein fyrir lífshlaupi
langömmu Guðmundar,
Margrétar Þorláksdóttur sem fædd
var í Haukadal í Dölunum í byrjun
19. aldar en flutti ung kona í
Borgarfjörðinn og náði 40 ára aldri.
Silja kallar Margréti
hina miklu skáldaformóður
í Borgarfirði.
Orð að sönnu:
Margrét var nefnilega langamma
þriggja þjóðþekktra skálda
hér á landi á 20. öld:
þjóðskáldsins Halldórs Laxness;
Sefáns Jónssonar, barnabókahöfundar,
og áðurnefnds skáldmögurs,
Guðmundar Böðvarssonar.
Leiðir hugann að formæðrum
þessa lands, hvunndagshetjunum,
og alls þess sem þær lögðu á sig
til þess að koma börnum sínum
til þroska þrátt fyrir óblíð kjör.
Í raun hreint ótrúlegt að þær
hafi einfaldlega lifað af sjálfar.
Við sem nú lifum á tímum
heimtufrekjunnar og alls kyns
yfirgangs í mannheimi, eigum
sannarlega þeim sem gengnir
eru, margt að þakka.
Gleymum ekki landinu sem
hefur fóstrað okkur; megi það
halda áfram að vera
friðmannsins draumaland.
Gleymum ekki að þakka
skáldunum okkar eins og
Guðmundi Böðvarssyni fyrir
skáldverk hans og þýðingar.
Án hans hefðum við t.a.m.
í uppvextinum ekki haft
aðgang að þýðingum
hans á 12 kviðum hins
Guðdómlega gleðileiks
Dante Alighieri:
Og líkt og mæta allir punkti einum,
við öxul geislar hjóls á vegi förnum,
svo lukti um mig sú ást, er höndum hreinum
heldur á sól og jörð og öllum stjörnum.
#
|