Forsíđa   
 24.12.2023
 Barnahátíđin mest: gleđilegar jólatíđir



Barnahátíðin mest gengur í garð.

Laðar fram sælar bernskuminningar
barnsins í okkur öllum en minnir um 
leið á að auðsýna mildi og mennsku 
og á skyldur okkar við blessuð börnin
sem eru að vaxa úr grasi.




Síðan fæddi hún fagran son
og í jötu lagði hann.
Allt var undarlegt kringum þau.
Ný stjarna á himni brann
og smám saman myrkrið fór
en þá birtist englakór
sem knékraup barninu ungu.
Og allsstaðar
svo heiðbjart var.
Englarnir sungu.



Það var himnesk englafjöld
þetta aðfangadagskvöld.
Ný hátíð var runnin upp
það var komin jólanótt.
Síðan er hver jólanótt
hvert ár barnahátíðin mest
la la la la barnahátíðin mest.



(Úr Aðfangadagskvöld;
Þorsteinn Eggertsson, 1942- ).




Gleðilegar jólatíðir nær og fjær!


#
Meira >>
 22.12.2023
 Vetrarsólstöđur: gott ađ sofa á dúnkodda og Dúnstúlkan í ţokunni



Vetrarsólstöður eru í dag undir
kyrrlátum gráhimni, jörð hreinhvít.
Nýfallin lausamjöllin lík æðar-
dúninum sem haldið hefur hita
á landanum í gegnum aldirnar
og verið gæðavara til útfutnings.
Dúntekja austur á Langanesi var 
lengi talin ein sú mesta á öllu 
Norð-Austurlandi ásamt vænni
dúntekju á prestsetrunum á
Skinnastöðum í Öxarfirði og 
Grenjaðarstað í Aðaldal.




Fyrr þennan sólstöðudag, lukum 
við hjá Skuggsjá lestri nýjustu 
bókar Bjarna M. Bjarnasonar,
Dúnstúlkan í þokunni sem Veröld
gefur út. En Bjarni er sá íslenski 
rithöfundur sem hvað mest hefur 
skrifað um drauma í þeim 20
verkum sem þegar hafa verið
gefin út eftir hann.

Óefað hefur Bjarni sjálfur kannað
lendur draumheima frá unga aldri 
líkt og Jóhannes Jónsson í Ásseli 
á Langanesi gerði líka á sínum 
tíma og bókin fjallar um.
Sagt er frá ævi Jóhannesar,
Drauma-Jóa og dúnstúlkunum
sem sáu um dúntekjuna og urðu 
sumar ekki langlífar; unnu sér til húðar.
Slík var sú mikla alúð við dúninn,
æðarfuglinn, eggin og ungana.
Nákvæmnisvinna út í eitt sem þær
inntu af hendi hjá oft á tíðum
hörðum húsbændum. Að ótöldu
ýmsu misjöfnu sem þær gat hent.





Dúnstúlkan í þokunni, gefur næma
innsýn í reynsluheim barnsins Jóa
og hvernig sá heimur mótar hann.
Galdramenn sem hann á ættir til 
eru nefndir til sögunnar og sagt er
frá einni helstu fyrirmynd hans,
Mikael Illugasyni í Skoruvík, afa hans;
vandist því m.a. í uppvextinum að sjá
kallinn tala við hrafnana og gefa nöfn.

Eins kynnist Jói útlöndum í gegnum afa 
og viðskiptum hans við duggara frá Evrópu.
Og dúntekjunni á útnesjum en æðardúnn
í sængur og kodda var góð skiptimynt.
Sagt er frá draumum Jóa frá unga
aldri sem sumir hverjir gátu verið 
virkilega óþægilegir. Jói var sem sagt,
draumskyggnt barn, og ekki allt tekið 
út með sældinni.

Síðar segir frá þjálfun með ýmsum 
grösum og draumstöfum á draumgáfu 
Jóa og upplestri yfir honum úr særinga-
blöðum og galdrabókaslitrum.
Þjálfun sem gerði kleift að segja fram 
drauma og veita svör við spurningum
sem fyrir hann voru lagðar, upp úr svefni. 
Þjálfun á fjarskyggni í svefni.

Langvinn veikindi og erfið hjá Jóa
eru og til umfjöllunar; hann kaus
heldur að vera kallaður aumingi
en niðursetningur.





Bjarni skrifar eftirminnilega um
þokuna á Langanesi og þá
dulúð sem hún sveipar átthaga
söguhetjanna og kallar Tár Guðs.
En himininn er huggari, hvað sem 
líður galdramönnum, geistlegu sem
veraldlegu valdi líkt og fram kemur 
í orðum Jóa þegar hann hughreystir 
dúnstúlkuna sína:




Núna er himininn grár. En stundum er
hann mjög fallegur. Það er gott að horfa
bara á fallega himininn sem maður
hefur séð áður og geymt djúpt í 
hugskotinu, eins og fjársjóð.
Horfa á hann eins og hann sé
yfir manni núna.




Hinn raunverulegi Jói bókarinnar
var sem fyrr segir, oft nefndur
Drauma-Jói og um hann fjallaði 
fyrsta íslenska dulsálfræðirannsóknin 
sem þeir Ágúst H. Bjarnason, rektor 
Háskóla Íslands og Guðmundur Finnbogason,
heimspeki-og sálfræðiprófessor, gerðu 
á draumgáfu Jóa og gáfu út á samnefndri 
bók árið 1915.
En Jói sá fyrir óorðna hluti og fann
týnda hluti og gaf svör í svefni þegar 
talað var til hans.

(Til gamans má geta þess að
Drauma-Jói og við hjá Draumasetrinu
Skuggsjá, eigum sameiginlegan forföður
sem var Ólafur Skorvíkingur Finnbogason,
útgerðarbóndi í Skoruvík á Langanesi, f.1701.
En eins og fyrr segir, kemur Skoruvík mjög 
við sögu í bókinni þar sem Mikael,
útnesjamaðurinn og afi Drauma-Jóa
bókarinnar, hélt til. 
Einnig má nefna að langafi Bjargar, 
forsvarskonu Skuggsjár, Vigfús Jónsson 
á Kúðá í Þistilfirði, var einn þeirra 
sveitunga hins raunverulega Jóa
sem þátt tóku í dulsálfræðirannsókninni 
á drauma-og fjarskyggnigáfu hans).





Dúnstúlka Bjarna er einstaklega vel skrifað
og leikandi lestrarverk. Bókin tekur jú 
á án þess að vera þyngslaleg þó hún fjalli 
á köflum um bág kjör og umkomuleysi
alþýðufólks í hörðum heimi.
En hún segir líka söguna af góðu fólki,
velgjörðarmönnume sem koma inn í líf 
Jóa og dúnstúlkunnar hans og hlúir að þeim,
gerir þeim lífið bærilegra, þessa heims 
og annars.
Ein þeirra er Ólína Jónsdóttir, dúnstúlka
og vinnukona á prestsetrinu á Sauðanesi
þar sem Jói hafði verið vinnumaður frá
unga aldri en tekur síðan að yrkja land 
að Ásseli. Ólína og Magnús maður 
hennar höfðu flutt á Langanesið eftir 
að missa skuldlaust bú og allt sitt í 
Dyngjufjallagosi, börnin þá uppkomin:




Ólína Jónsdóttir. Jú. Ég var sumarið
undarlega þegar þú fylltir það svo af 
dún að við urðum stundum að fara út
bara til að anda. Nýju dúnstúlkurnar 
trúa því ekki hvernig ástandið var þegar
ég segi frá því.




(Það verður að segjast, að Ólína sögunnar 
minnir á skemmtilegan hátt á langömmu
Bjargar úr Þistilfirðinum, Ólínu Ingibjörgu
Jónsdóttur á Grímsstöðum og síðar Kúðá.
Hún þótti mæt kona eins og Indriði
ættfræðingur nefnir. Tók m.a. að sér 
umkomulaus börn þótt barnahópur
hennar hefði verið stór fyrir. En Ólína
á Kúðá og Drauma-Jói voru samtíða
fyrir austan).




Dúnstúlka Bjarna byggir m.a. á heimildum
sem hann aflaði sér er hann skrifaði
meistararitgerð í guðfræði um Drauma-Jóa
fyrir nokkrum misserum. Nú vinnur hann
að doktorsritgerð um draumvísur, þá
aldagömlu draumhefð sem sér víða stað
í reynsluheimi landans fyrr og nú, í 
menningu og þjóðtrú, að ógleymdum
Íslendingasögunum.




Nokkuð magnað gerðist þegar
lokið var við lestur Dúnstúlkunnar
fyrr í dag og kveikt var á útvarpinu.
Verið var að lesa auglýsingar og 
fyrsta auglýsingin sem hljómaði
á öldum ljósvakans, fjallaði um
gæði dúnkodda og hve góðir þeir 
væru fyrir góðan svefn!

Þunn eru skilin heimanna, tíma og rúms. 
Og margt býr í þokunni!

Við hjá Skuggsjá óskum Bjarna innilega 
til hamingju með eðalbók.
Söguhetjan Jói, hertur í eldi reynslunnar
á lendum vöku, svefns og drauma, kemst 
að því hvað sem öllu líður, að ekki væri
með særingum hægt að forðast lífið.




#
Meira >>
 27.11.2023
 Óskastjarnan og tilgerđarkćti samtímans

Jörð skelfur og fyrirboðar
birtast í draumsýnum; haft
er samband við Veðurstofu og
Almannavarnir eins og við höfum
áður gert hér hjá Skuggsjá í
gegnum árin. En Skuggsjá
fagnar 20 ára afmæli nú í
nóvember.
Má segja að ákveðin mildi hafi 
verið yfir atburðum á Reykjanesi 
miðað við þá ógnarkrafta sem 
hafa verið að leysast úr læðingi 
þar allt frá 2020 og nú síðast,
í stóra skjálftanum 10. nóv. sl.
í nágrenni Grindavíkur.

En eyðileggingin og óvissan í 
kjölfarið, missir húsa og heimila 
og hvort fólk eigi afturkvæmt til 
búsetu og starfa í sínu góða
samfélagi, eru stórar og
þungar tilvistarspurningar.

Vonarbænir fyrir bættum hag 
og betri tíð til handa Grindvíkingum.





Á fullu tungli þessa mánudags
í mildri skammdegisstillu þegar 
náttúruvá steðjar að hér heima
og menn brytja/drita niður hvern
annan úti í heimi og eira engu, 
ekki heldur börnum, rifjast
upp orð skáldsins frá Arnarholti, 
Sigurðar Sigurðssonar, lyfsala,
(1879-1939), um vora óskastjörnu, 
hugans sálarsýn, í sorg, í draumi, 
eða vonarbænum.

Arnarholt í Stafholtstungum er sá
bær sem Sigurður kenndi sig við
hvar hann starfaði sem sýsluskrifari
ungur maður. Hann var fóstursonur
Björns M. Ólsen, rektors Lærða
skólans í Reykjavík, fæddur í 
Danmörku en missti Sigurð föður 
sinn og samstarfsmann Björns,
aðeins 5 ára að aldri.






Sigurður er sannarlega eitt af
draumskáldum okkar og sér
þessa víða stað í ljóðum hans.
Ófáar eru tilvísanirnar í svefn 
og drauma: draumsins myndir
geymast æ; sjá draumsins helgu,
hljóðu vé; kom draumsins
guð og gefðu hvað þú vilt...

Eitt þekktara ljóða Sigurðar
fjallar um líknargæði svefns 
og drauma og heitir Nótt:



Sefur sól hjá ægi,
sígur höfgi yfir brá.
Einu ljúflingslagi
ljóðar fugl og aldan blá.
Þögla nótt, í þínum örmum
þar er rótt og hvíld í hörmum - 
hvíldir öllum oss.



Og í hinu magnaða ljóði Lágnætti 
við Laxfoss, talar Sigurður um
þann sem þarf að dreyma og gleyma:



Sof rótt á meðan, veröld víð og breið,
og vek ei neinn, sem þarf að dreyma'
og gleyma.



En orðhákurinn sem Sigurður var,
talar líka um tilgerðarkæti sem
aldarhátt en hann var maður
tveggja tíma/alda. Þann kvíða 
og streitu sem einkenndi samtíma 
hans í eftirsókninni eftir hjóminu,
forgengilegum hlutum. Enn
einkennandi fyrir andblæ daganna.

Tilgerðarkæti sem skapar vissa 
aftengingu við það sem er og
villir sýn á raunveruleg verðmæti,
mildi og mennsku. 
Gefum óskastjörnunni og
vonarbænunum svigrúm fyrir
góðvild og samhjálp.



#

Meira >>
 28.10.2023
 Heilunarmáttur ljóđs og drauma á fyrsta degi Vetrar



Fyrsti dagur Vetrar á fullu tungli
og Venus skín skært sem bæði 
morgun-og kvöldstjarna.
Og með kvöldinu verður deildarmyrkvi
á tungli; ekki ýkja langt síðan
sólmyrkvi varð á nýju tungli
þann 14. október sl.

En hefur einhver fyrir því að líta upp?





Nú leita margir í hæglæti ljóðsins.
Ljóðlistin heilar og veitir svölun
þessi dægrin þegar alls kyns 
hörmungar og mannleg hermdarverk 
undir himninum, ólýsanleg grimmd, 
dynja á sakleysingjum, ungum sem öldnum,
og búið er að gjaldfella mennskuna.
Árásaraðilar óttast greinilega ekki 
reiði himnanna eins og haft var á orði
á fyrri tíð um veröld víða:



Það er fullt af undarlegri illsku
á reiki um jörðina, segir á einum stað.




Svefn raskaðist verulega hjá mörgum
víða um heimsbyggðina í kófinu
og hvað þá nú fyrir þolendur ofbeldisverka
og mannréttindabrota, stanslausra ógna 
og árása, í heimi þar sem þróunin er til 
aukinnar bókstafshyggju, vopnavalds og 
alræðisstjórnunar. Engu er eirt.


Hver sefur í slíku ástandi og hvað með 
hvíldir og úrvinnslu svefns og drauma
til endurnýjunar líkams-og sálarkrafta?






Lausnir eru fáar og tæki til að vinna
að friðsamlegum lausnum og sambúð
ólíkra þjóða og hópa, enn fábrotin.
Fjármagnið fer ekki í þá veru nema 
nú verði gerð bragarbót á. 
Við hljótum að geta leyst þessar 
stóru þversagnir sem við blasa 
án vopnavalds, grimmdarverka 
og eyðileggingar með spunameistara
á bak við tjöldin sem sundra og eitra.
Þurfum ekki að vera sammála og
þó við séum ósammála, þurfum 
við ekki að meiða og deyða
hvert annað. Engin lausn í því.
 

Allir þurfa að eiga sitt heima og
halda voninni um miskunnsemi
og kærleika í mannlegu samfélagi.
Voninni um að komast af og lifa 
í friði undir himninum.






Árið 2021, gaf JPV út þýðingar
Hjörleifs Sveinbjörnssonar, á 
ljóðum frá Tang tímanum í Kina, 
Meðal hvítra skýja en Tang
tímabilið stóð frá 618 til 907 og er 
talið eitt mesta blómaskeið í sögu
og menningu Kína fyrr og síðar.

Áður, eða 2008, hafði Hjörleifur þýtt 
sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar,
Apakóngur á Silkiveginum, sem JPV
gaf líka út.



Í ljóði sínu Hugsað um kyrra nótt,
kveður eitt höfuðskáld Tang tímans, 
Li Bai (Li Po), um einfaldleikann og
sitt heima sem hann saknar
undir skæru tungli:




Við rúmið mitt skín tunglið skært,
mér finnst sem það sé hrím á jörð.
Ég lyfti höfði og lít tunglið,
ég lýt höfði og hugsa heim.



#


Meira >>
Síđasta frétt  1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA