Forsíđa   
 28.08.2025
 Foldarskart: dumbrauđu höfđi dćgrin ljós, drjúpir hin vota engjarós


Sumri hallar en veðurfegurð
enn mikil eftir gott sumar.
Engjarósin hávaxna sem 
blómstraði seint í júní, öllu fyrr
en venjulega líkt og annar
gróður í góðri tíð, stendur
enn tígullega og hafa nú 
dumbrauð blómin með 
mörgum frævum í kúptum
blómbotni, umbreyst í rauðar 
hnetur; aldin líkist jarðaberjum.


Þessi eftirtektarverða og tignarlega
blómplanta af Rósaætt vex
aðallega í mýrlendi og við
vota staði en hefur nú numið
land í skógarbotni í heimagarði.
Hún vex þar nálægt runnum 
og Draumsóleyjum í skjóli 
Reynitrjáa og Gullregns sem líka 
blómstraði viku fyrr en venjulega 
þetta sumarið.




Engjarósinni hefur stundum verið 
blandað saman við hin fagra
Fjalldalafífil og minnir á 
skáldaleyfið sem Jón Helgason, 
tekur sér í kvæði sínu Á Rauðsgili:
 
dumbrauðu höfði, dægrin ljós,
drjúpir hin vota engjarós.


Varðandi nytjar engjarósar hér
á landi, er helst til að taka 
að hún þótti henta til litunar
rauðs bands en hefur verið
notuð úti í löndum til þess 
að lækna ígerðir eða drekka af
laufum hennar te til að milda
sárindi í maga.




Engjarósin á sér fleiri heiti,
s.s. Blóðsóley, Kóngshattur
Krosslauf. Einnig Fimmfingrajurt
eftir blöðkunum: ber fimm til
sjö krónublöð, löng, mjó 
og skarðtennt.
Hún telst ekki ein af helstu
svefn-og draumplöntum okkar
en gleður sál og sinni með
kyrrlátri og tignarlegri nærveru.





Falleg blómplanta ilmandi
um nætur af Orkídeuætt 
sem tengist svefni og draumum 
og átti að leggja undir koddann og
sofa á, birtist í garðinum í sumar:
bleikblóma Brönugras á milli 
Engjarósanna. 

Talið var að tína ætti brönugrasið
á Jónsmessunótt, einkum huga
að rótinni og varðveita hana en
rótin er tviskipt og á gildari endinn
að geta vakið ástir en sá mjórri 
tengdist aftur á móti sefun/hreinlífi. 
Enda kölluð ýmist Friggjargras 
eða Hjónagras eftir notkun hennar
til að örva eða sefa (eins og misklíð
hjóna).






Í þjóðtrúnni voru Baldursbrá, 
Freyjugras og Fjögurra blaða 
Smári þekktar jurtir sem hægt
var að leggja undir höfuð 
sér fyrir svefn og gat mann þá
t.a.m. dreymt þann sem stolið
hafði frá manni.

Garðabrúða og Vallhumall
eru enn í dag aðal svefnjurtirnar.
(Meira um þær síðar og sefandi 
áhrif þeirra fyrir bættan svefn).


En hið eina sanna draumgras,
er talin vera Klólelftingin sem
vex allra grasa fyrst á vorin
og fullsprottin í kringum 16. maí.
Þá er gott að tína hana og 
leggja inn í Biblíuna og þurrka
fram til haustsins.
Bera siðan í hársrætur fyrir 
svefn sextánda sunnudag eftir 
Þrenningarhátíð (sem er á haustin
en sjálf hátíðin í byrjun sumars).
Þá getur dreymandinn látið
sig dreyma hvað hann vill!




Talandi um blómplöntur og gleðina
sem þær veita ásamt ýmsum nytjum,
útbreiðslu, nöfnum og sögu,
kemur glæsilegt tæplega 700
blaðsiðna myndskreytt rit 
Helga Hallgrímssonar, náttúrufræðings, 
um íslenskar blómplöntur og
Skrudda gaf út í sumar, heldur betur 
að góðu gagni.

Helgi nefnir rit sitt Foldarskart með
visun í ljóð Jónasar Hallgrímssonar 
um blómplönturnar, litglaðan og 
gefandi foldargróðurinn:

Smávinir fagrir, foldarskart...

Dreymi þig ljósið,
sofðu rótt!

Helga sé heill níræðum með 
þetta frábæra og fallega framlag 
til íslenskrar grasafræði!



#



Meira >>
 01.07.2025
 Ljós í fjöllum: Snćfellsjökull og draumsýnir Margrétar frá Öxnafelli


Frá Strönd á Barðaströnd,
blasir Snæfellsjökull við
í allri sinni höfðinglegu tign;
í gærkvöldi var sýn til hans
einstaklega skír.
Maður þakkar bara pent
fyrir sig og þetta magnaða
sjónarspil á fögru sumarkvöldi.
Það er líkt og ljós ljómi í
fjallinu og geisli langt út 
frá sér og umvefji þá sem
á horfa. 


Leiðir hugann að frásögnum 
dulskyggnra af ljósum í fjöllum. 
Ein þeirra og sem eitt sinn bjó 
hjá Snæfellsjökli, taldi sig oft sjá
ljós í fjöllum þar--hafði verið 
skyggn frá unga aldri og snemma
talið sig sjá ljós í fjöllunum heima--.
Þetta var sjáandinn og hug-
læknirinn, Margrét J. Thorlacíus,  
frá Öxnafelli í Eyjafirði, (1908-1989).
En þar bjó hún lengst af ævinnar.

Eiríkur Sigurðsson, skólastjóri 
á Akureyri, ritaði um hana tvær
bækur, Skyggna konan, sem 
út komu hjá bókaútgáfunni 
Fróða, snemma á sjöunda 
áratug síðustu aldar. 





Margrét fór sálförum, m.a. í
draumum, og sá aðra heima,
fólk og dýr, og fjarlæga staði.
Lék sér við huldubörn lítil,
að sögn.

En efst í huga hennar, var þó
löngunin til að lækna og lina 
þjáningar samferðafólksins.
Hún bað þess innilega að 
öðlast lækningagáfu og fór
svo að framliðinn læknir að 
nafni Friðrík, tók að fylgja henni.
Hún eignaði honum sín
læknisverk en margir leituðu
til hennar eftir bót meina sinna;
á langri ævi, starfaði hún 
áratugum saman sem huglæknir.

Margrét segir frá hrifningar-
ástandi sem hún upplifði 
þegar hún bað þess að öðlast 
gáfu til þess að lina og lækna: 



Ég gekk upp fyrir bæinn og 
sá regnbogann í litskrúði sínu. 
Mér hafði verið sagt að menn 
gætu óskað sér einhvers
ef þeir kæmust undir enda
regnabogans.
Þar sem hún sat á þúfu, 
féll hún í leiðslukennt ástand, 
sá þá fagurt, dásamlegt litróf 
allt í kringum mig. Fannst ég 
komin undir enda regnbogans
og eiga óskastund. 

Varð Margréti að ósk sinni
og helgaði sig þjónustu við 
þjáða upp frá því.Og kom fólk 
til hennar úr Eyjafirðinum og
víðar að eftir aðstoð.



Við upphaf ferðar okkar frá Akureyri
á Snæfellsnes og Barðaströndina,
voru allt í einu nokkrar dumbrauðar
og nýútsprungnar Engjarósir
líka nefndar Blóðsóleyjar og 
Kóngshattar, mættar í garðinn 
heima morguninn sem lagt
var af stað, háar og tignarlegar.
Kannski tókum við ekki eftir
þeim þarna á milli runna
áður en þær blómstruðu...

Engjarósir eru algengar í 
Eyjafirðinum en ekki verið áður
í garðinum heima:
getum okkur þess til að þær séu
ættaðar af slóðum Margrétar
en sláttumaðurinn okkar 
tengist Öxnafelli og kann að 
hafa borið fræ plöntunnar
með sér í Fjólugötugarðinn!
Spennandi að fylgjast með
hvernig þær dafna í nýjum
heimkynnum í sumar!



#




Meira >>
 17.06.2025
 Friđmannsins draumaland á bak viđ hafiđ...



Mildir júnídagar og kærkomnir
og nú á Sautjándanum léttir
til seinni partinn eftir vætu 
morgunsins.
Nýr dagur og fagur við
yzta haf á friðmannsins
draumalandi:



Og þessi blettur, öllum frjáls og fagur,
friðmannsins draumaland á bak við hafið,
bauð fyrstu gestum einverunnar unað,
ósnortið land og gróðurskrúði vafið;
þögn þess var ofin eflarniði og lindar, 
ilmreyr í skógi, hvönn í gili og mó
og friðarhöfn á hvítalygnum vogi
hverjum er langveg fór um krappan sjó.



Svo orti skáldið Guðmundur Böðvarsson
frá Kirkjubóli, (1904-1974), í
Þjóðhátíðarljóði 1974.
En Guðmundur var afkastamikið
skáld og þýðandi og stundaði
búskap meðfram heima á
Kirkjubóli í Hvítársíðu í Borgarfirði.

Silja Aðalsteinsdóttir, rithöfundur,
bókmenntafræðingur og þýðandi, 
tók saman merka bók um ævi og störf
Guðmundar, Skáldið sem sólin kyssti,
og út kom hjá Hörpuútgáfunni
árið 1994. En fyrir bókina hlaut hún
Íslensku bókmenntaverðlaunin 1995.

Bók Silju tengir við heiti fyrstu
ljóðabókar Guðmundar Kyssti mig sól,
sem út kom árið 1936 og
naut mikilla vinsælada.
Alls urðu ljóðabækurnar tíu og
að auki ein þýdd að ótöldum
fjölmörgum greinum um þjóðmál ofl.

Í þessu merka bókverki Silju,
kemur margt fram um ævi
og ættir Guðmundar sem
varpar ljósi á skálda-og 
æviferil hans; lífsljóðið hans. 

Silja gerir m.a. grein fyrir lífshlaupi
langömmu Guðmundar, 
Margrétar Þorláksdóttur sem fædd
var í Haukadal í Dölunum í byrjun 
19. aldar en flutti ung kona í 
Borgarfjörðinn og náði 40 ára aldri. 

Silja kallar Margréti
hina miklu skáldaformóður
í Borgarfirði
Orð að sönnu: 
Margrét var nefnilega langamma
þriggja þjóðþekktra skálda
hér á landi á 20. öld: 

þjóðskáldsins Halldórs Laxness; 
Sefáns Jónssonar, barnabókahöfundar,
og áðurnefnds skáldmögurs,
Guðmundar Böðvarssonar.




Leiðir hugann að formæðrum 
þessa lands, hvunndagshetjunum,
og alls þess sem þær lögðu á sig 
til þess að koma börnum sínum
til þroska þrátt fyrir óblíð kjör.
Í raun hreint ótrúlegt að þær 
hafi einfaldlega lifað af sjálfar.



Við sem nú lifum á tímum
heimtufrekjunnar og alls kyns
yfirgangs í mannheimi, eigum
sannarlega þeim sem gengnir 
eru, margt að þakka. 
Gleymum ekki landinu sem
hefur fóstrað okkur; megi það
halda áfram að vera
friðmannsins draumaland.

Gleymum ekki að þakka
skáldunum okkar eins og 
Guðmundi Böðvarssyni fyrir
skáldverk hans og þýðingar.
Án hans hefðum við t.a.m.
í uppvextinum ekki haft 
aðgang að þýðingum
hans á 12 kviðum hins
Guðdómlega gleðileiks
Dante Alighieri:



Og líkt og mæta allir punkti einum,
við öxul geislar hjóls á vegi förnum,
svo lukti um mig sú ást, er höndum hreinum

heldur á sól og jörð og öllum stjörnum.



#






Meira >>
 18.05.2025
 Ţá er betra ţreyttur fara ađ sofa; draumsóleyjar í maíhita



Ómunablíða undanfarið; 
sól og heiðríkja þennan 
sunnudag og yfir 20 stig 
hér í Norðrinu.

Gróður hefur tekið svo 
vel við sér í hlýindunum
undanfarið, dag eftir dag,
að tré hafa ekki aðeins 
laufgast heldur byrjuð 
að bera blóm;
gullregnið við hússtafninn
meira að segja að laufgast
sem er óvenju snemmt
miðað við öll fyrri árin 
í Fjólugötunni, 44 talsins. 





Draumsóleyjarnar mættar
í garðinn í sínum gula og 
appelsínugula blómskrúða; 
skyldi ein og ein hvít jafnvel 
bleik, láta sjá sig síðar?
En við biðjum ekki í
yfirlæti um slík fágæti; 
þökkum í auðmýkt, 
skyldu slíkar Stefánssólir 
birtast þegar líður fram
á sumar.



Draumsóley er líka nefnd 
Melasól eða Melasóley
og sú jurt sem vex hvað
nyrst á jörðinni ásamt
hinu fagra rauðfjólulita
Vetrarblómi sem líka vex
víða hér á landi.



Draumsóley var oft
nefnd svefnurt eða
svefngras hér áður 
og talið að hún hefði 
róandi og slakandi 
verkun ef neytt fyrir 
svefn. En spurningin
er þó hvort hér var
einungis átt við sjálf
blómin í vökva og/eða 
aðra hluta plöntunnar.
Hún var líka notuð til
lækninga, þótti hreinsandi.
Komið hefur í ljós að
hún er að einhverju leyti 
eitruð; af valmúaætt.





Séra Björn Halldórsson,
(1724-1794), sem lengi 
var prestur í Sauðlauksdal 
á sunnanverðum Patreksfirði,
áleit draumsóleyjuna góða
til lækninga brjóstveiki og
við verkjum og væri blóð-
hreinsandi; hún gæti
líka hjálpað með svefn
og unnið gegn svefnleysi. 
Hann talar um blóm hennar 
lögð í vín áður en hennar
sé neytt í lækningaskyni.

(Ráðlegt að taka blómin 
og leggja í viku í hvítvín 
og taka síðan seyðið inn 
í dropaformi).




Björn var mikill frumkvöðull
í garðrækt og jarðyrkju;
flestir hafa lært um hann
á sínum bernskuárum
sem forvígismann að 
kartöflurækt hérlendis.
Honum sé heil þökk frá 
kartöfluætum landsins! 
Fyrir utan svo alla 
búbótina allar götur síðan.

(Jú, mikið rétt, Dani nokkur
byrjaði með slíka ræktun
á Bessastöðum nokkru 
fyrr. En útbreiðslan er 
fyrst og fremst þökkuð 
Birni sem hóf hana 1760).




Í ljóðinu Ævitíminn eyðist,
talar Björn um að nýta tíma
okkar vel og skila síðan
gestaherberginu vel af
okkur í hendur næsta
umönnunaraðila/ábúanda:




Ævitíminn eyðist, unnið skyldi
langtum meir.
Síst þeim lífið leiðist
sem nýtist þar til útaf deyr.
Þá er betra þreyttur fara að sofa
nær vaxið hefur herrans pund
en heimsins stund
líði í leti og dofa.



#




Meira >>
1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  67  68  69  70  71  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA