Forsíđa   
 17.06.2025
 Friđmannsins draumaland á bak viđ hafiđ...



Mildir júnídagar og kærkomnir
og nú á Sautjándanum léttir
til seinni partinn eftir vætu 
morgunsins.
Nýr dagur og fagur við
yzta haf á friðmannsins
draumalandi:



Og þessi blettur, öllum frjáls og fagur,
friðmannsins draumaland á bak við hafið,
bauð fyrstu gestum einverunnar unað,
ósnortið land og gróðurskrúði vafið;
þögn þess var ofin eflarniði og lindar, 
ilmreyr í skógi, hvönn í gili og mó
og friðarhöfn á hvítalygnum vogi
hverjum er langveg fór um krappan sjó.



Svo orti skáldið Guðmundur Böðvarsson
frá Kirkjubóli, (1904-1974), í
Þjóðhátíðarljóði 1974.
En Guðmundur var afkastamikið
skáld og þýðandi og stundaði
búskap meðfram heima á
Kirkjubóli í Hvítársíðu í Borgarfirði.

Silja Aðalsteinsdóttir, rithöfundur,
bókmenntafræðingur og þýðandi, 
tók saman merka bók um ævi og störf
Guðmundar, Skáldið sem sólin kyssti,
og út kom hjá Hörpuútgáfunni
árið 1994. En fyrir bókina hlaut hún
Íslensku bókmenntaverðlaunin 1995.

Bók Silju tengir við heiti fyrstu
ljóðabókar Guðmundar Kyssti mig sól,
sem út kom árið 1936 og
naut mikilla vinsælada.
Alls urðu ljóðabækurnar tíu og
að auki ein þýdd að ótöldum
fjölmörgum greinum um þjóðmál ofl.

Í þessu merka bókverki Silju,
kemur margt fram um ævi
og ættir Guðmundar sem
varpar ljósi á skálda-og 
æviferil hans; lífsljóðið hans. 

Silja gerir m.a. grein fyrir lífshlaupi
langömmu Guðmundar, 
Margrétar Þorláksdóttur sem fædd
var í Haukadal í Dölunum í byrjun 
19. aldar en flutti ung kona í 
Borgarfjörðinn og náði 40 ára aldri. 

Silja kallar Margréti
hina miklu skáldaformóður
í Borgarfirði
Orð að sönnu: 
Margrét var nefnilega langamma
þriggja þjóðþekktra skálda
hér á landi á 20. öld: 

þjóðskáldsins Halldórs Laxness; 
Sefáns Jónssonar, barnabókahöfundar,
og áðurnefnds skáldmögurs,
Guðmundar Böðvarssonar.




Leiðir hugann að formæðrum 
þessa lands, hvunndagshetjunum,
og alls þess sem þær lögðu á sig 
til þess að koma börnum sínum
til þroska þrátt fyrir óblíð kjör.
Í raun hreint ótrúlegt að þær 
hafi einfaldlega lifað af sjálfar.



Við sem nú lifum á tímum
heimtufrekjunnar og alls kyns
yfirgangs í mannheimi, eigum
sannarlega þeim sem gengnir 
eru, margt að þakka. 
Gleymum ekki landinu sem
hefur fóstrað okkur; megi það
halda áfram að vera
friðmannsins draumaland.

Gleymum ekki að þakka
skáldunum okkar eins og 
Guðmundi Böðvarssyni fyrir
skáldverk hans og þýðingar.
Án hans hefðum við t.a.m.
í uppvextinum ekki haft 
aðgang að þýðingum
hans á 12 kviðum hins
Guðdómlega gleðileiks
Dante Alighieri:



Og líkt og mæta allir punkti einum,
við öxul geislar hjóls á vegi förnum,
svo lukti um mig sú ást, er höndum hreinum

heldur á sól og jörð og öllum stjörnum.



#






Meira >>
 18.05.2025
 Ţá er betra ţreyttur fara ađ sofa; draumsóleyjar í maíhita



Ómunablíða undanfarið; 
sól og heiðríkja þennan 
sunnudag og yfir 20 stig 
hér í Norðrinu.

Gróður hefur tekið svo 
vel við sér í hlýindunum
undanfarið, dag eftir dag,
að tré hafa ekki aðeins 
laufgast heldur byrjuð 
að bera blóm;
gullregnið við hússtafninn
meira að segja að laufgast
sem er óvenju snemmt
miðað við öll fyrri árin 
í Fjólugötunni, 44 talsins. 





Draumsóleyjarnar mættar
í garðinn í sínum gula og 
appelsínugula blómskrúða; 
skyldi ein og ein hvít jafnvel 
bleik, láta sjá sig síðar?
En við biðjum ekki í
yfirlæti um slík fágæti; 
þökkum í auðmýkt, 
skyldu slíkar Stefánssólir 
birtast þegar líður fram
á sumar.



Draumsóley er líka nefnd 
Melasól eða Melasóley
og sú jurt sem vex hvað
nyrst á jörðinni ásamt
hinu fagra rauðfjólulita
Vetrarblómi sem líka vex
víða hér á landi.



Draumsóley var oft
nefnd svefnurt eða
svefngras hér áður 
og talið að hún hefði 
róandi og slakandi 
verkun ef neytt fyrir 
svefn. En spurningin
er þó hvort hér var
einungis átt við sjálf
blómin í vökva og/eða 
aðra hluta plöntunnar.
Hún var líka notuð til
lækninga, þótti hreinsandi.
Komið hefur í ljós að
hún er að einhverju leyti 
eitruð; af valmúaætt.





Séra Björn Halldórsson,
(1724-1794), sem lengi 
var prestur í Sauðlauksdal 
á sunnanverðum Patreksfirði,
áleit draumsóleyjuna góða
til lækninga brjóstveiki og
við verkjum og væri blóð-
hreinsandi; hún gæti
líka hjálpað með svefn
og unnið gegn svefnleysi. 
Hann talar um blóm hennar 
lögð í vín áður en hennar
sé neytt í lækningaskyni.

(Ráðlegt að taka blómin 
og leggja í viku í hvítvín 
og taka síðan seyðið inn 
í dropaformi).




Björn var mikill frumkvöðull
í garðrækt og jarðyrkju;
flestir hafa lært um hann
á sínum bernskuárum
sem forvígismann að 
kartöflurækt hérlendis.
Honum sé heil þökk frá 
kartöfluætum landsins! 
Fyrir utan svo alla 
búbótina allar götur síðan.

(Jú, mikið rétt, Dani nokkur
byrjaði með slíka ræktun
á Bessastöðum nokkru 
fyrr. En útbreiðslan er 
fyrst og fremst þökkuð 
Birni sem hóf hana 1760).




Í ljóðinu Ævitíminn eyðist,
talar Björn um að nýta tíma
okkar vel og skila síðan
gestaherberginu vel af
okkur í hendur næsta
umönnunaraðila/ábúanda:




Ævitíminn eyðist, unnið skyldi
langtum meir.
Síst þeim lífið leiðist
sem nýtist þar til útaf deyr.
Þá er betra þreyttur fara að sofa
nær vaxið hefur herrans pund
en heimsins stund
líði í leti og dofa.



#




Meira >>
 20.04.2025
 Egg í draumum páska - og fegurđin ein



Egg eru tákn nýs lífs, 
upprisu og endurfæðingar
um veröld víða, fyrr og nú.
Og páskaeggin, sannkallaður 
vorboði fyrir börn á öllum
aldri hér á landinu kalda.




Í draumfræðum er eggið
tákn innra sjálfs: sálarinnar
og andlegrar umbreytingar.
Minnir á hringrás tíma
og sköpunar. 
Frjósemistákn.



Draumar af eggjum eru
mun algengari en menn
halda; leitir á Google
skipta þúsundum.
Í túlkun skiptir máli
hvort eggið sé nýtt 
og óbrotið t.a.m.; 
skrautlega máluð egg 
eða vel skreytt, talin
vísa á vinafagnað.

Egg í draumi viðkomandi
geta annað tveggja birst 
honum á tímamótum
á lífsleiðinni sem tákn um 
að nýtt og bjartara tímabil
sé að hefjast, eða að eggið
geymi leyndardóma sem
muni birtast dreymanda;
að hann uppgötvi leynda
hæfileika sína eða sjái nýja
möguleika.




Páskar eru tími upprisunnar
í bæði eiginlegum og 
óeiginlegum skilningi.
Kyrravika - Dymbilvika
að baki.
Megi tími íhugunar og 
hvildar skila okkur
auknu heimsljósi.
Bjartari sýn og endurnýjaðri
tengingu við landið, okkar
innri mann og samferðafólk.



Ljósvíkingurinn og skáldið
Ólafur Kárason, lýsir
leit sinni á mörkum heima
og síðan upprisu á Páskum
eftirfarandi:




Þar sem jökulinn 
ber við loft,
hættir landið 
að vera jarðneskt,
en jörðin fær hlutdeild 
í himninum,
þar búa ekki framar 
neinar sorgir
og þessvegna er 
gleðin ekki nauðsynleg.
Þar ríkir fegurðin ein,
ofar hverri kröfu.



(Halldór Laxnes; Heimsljós;
Vaka-Helgafell, 1955).


#
Meira >>
 20.03.2025
 Vorjafndćgrin sem gleymdust...



Talandi um hávaðann í
menningu okkar:
það að vorjafndægur séu
í dag, gleymdist alveg
í æsifréttum dagsins!

Brauð og leikar;
þegar aðeins ein hlið 
máls er kynnt og poppuð
upp eins og um gamanmál 
sé að ræða. Til hvers?
Þetta klæðir okkur illa hér
á litla Skerinu og ættum
að láta af slíkri ómenningu
og niðurrifi í okkar litla
samfélagi.

Hugmyndin um friðhelgi 
manns og náttúru er áleitin
og finnur sinn farveg
sama hvað.




Draumur af Zebrahesti í
Vaðlaheiði, (nálægt pólitískt
umdeildri framkvæmd,
Vaðlaheiðargöngum), 
birtist í draumheimi nætur. 
Draumráðningar taka
mið af hvort zebrahesturinn
hafi verið rór eða æstur.
Já, kannski var þetta fyrirboða
draumur fyrir daglátum
sem raskaði allri reglu
og skapaði óróa.
En til hvers? 
Skapa meiri glundroða?
Friðhelgi margra að veði.

Yfirleitt er Zebrahestur
í draumi, talinn fyrir góðu,
vísar á jafnvægi og samræmi
ef hann unir glaður við sitt
en ef ókyrr, fyrir óvæntri 
ókyrrð, jafnvel skaða...

Birtist heldur ekki si sona
í Vaðlaheiði þegar vetur
kveður og vor heilsar.



Nýr tími í kortum Náttúrunnar;
sama hvað, hún heldur sína rás.
Barátta er í eðli lífsins, líka
sama hvað - og nú er tími
baráttunnar upprunnin þrátt
fyrir að ítrekað sé traðkað á
friðhelgi og rétti manns og
annars og reglubókinni hent
heima sem heiman.

Áfram skal haldið...


#


Meira >>
1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  67  68  69  70  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA